Hjátrú um norðurljósin

Skarðsheiðin og Heiðarhyrnan í fallegri umgjörð norðurljósanna.
Canon 5DM3 – 16-35mm II – f/2.8 – 8 sek – iso 6400. Mynd tekin í byrjun nóvember 2013.

Norðurljósin hafa verið tilefni til ýmiskonar hjátrúar eða sögusagna. Gamla testamentið nefnir norðurljósin, og svo gera fræðimenn eins og; Aristóteles, Galileo, Goethe, Halley og Descartes í þeirra verkum. Hérna eru nefnd nokkur dæmi um hjátrú og sögusagnir um hvernig fólk brást við norðurljósunum og hvaða áhrif þau gátu haft á líf þeirra.

Inúítar trúðu því að norðurljósin væru andar framliðinna sem léku einhvers konar knattleik með rostungshöfðum.

Í Síberíu var talið að börn sem fæddust þær nætur sem norðurljósin voru mikil lifðu löngu og hamingjusömu lífi.

Í norrænni goðafræði voru norðurljósin talin vera endurspeglun af skjöldum valkyrja í kappreiðum þeirra á himnum á leið sinni á hvíldarstað sinn, Valhöll.

Talið er að fyrst drekasagan í Kína og Evrópu sé upprunnin frá norðurljósunum, fólkið sá fyrir sér dreka fara um himininn og gefa frá sér eldspúandi andardrátt sem dreifðist um himininn.

Ýmsir indíánaflokkar í Norður-Ameríku höfðu sínar hugmyndir um norðurljósin. Sumir töldu að þau væri fallnir andstæðingar sem leituðu hefnda en aðrir töldu ljósin stafa af eldum sem kveiktir voru af dvergum í norðri.

Í Noregi trúðu margir sjómenn að norðurljósin hjálpuðu þeim að sjá fiskana, sér í lagi síld. Þess vegna kölluðu þeir norðurljósin einnig síldarljós.

Íslensk hjátrú segir að ef þunguð kona horfir á norðurljós eða blikandi stjörnur muni barnið sem hún ber undir belti tina, þ.e. hafa tinandi augu eða verða rangeygt.

Því var einnig trúað í íslenskri hjátrú að norðurljósin gætu linað sársaukann við fæðingu barns, en það mætti ekki horfa á ljósin rétt fyrir fæðingu.

Þegar norðurljós sjást seint að vetri telja sumir að enn sé að vænta snjókomu.

Á mörgum stöðum hafa norðurljós sett sitt mark á menningu þjóða. Norðarlega í Noregi er stórt svæð sem kallast Hálogaland sem dregur nafn sitt af norðurljósunum.

Í sænsku Smálöndunum var áður fyrr til skýring á norðurljósunum. Þar sagði að hvítir svanir hefðu eitt sinn efnt til keppni um hverjir þeirra gætu flogið lengst í norður. Þeir sem lengst flugu norðureftir frusu á endanum fastir í loftinu, og þegar þeir reyndu í örvæntingu að losa sig með því að blaka vængjunum urðu norðurljósin til.

Í Finnlandi voru norðurljósin kölluð „Refaeldar“. Nafnið vísar til refs sem feykir ljósamjöll yfir himinninn með skotti sínu.

Í kínverskri og japanskri menningu er því trúað að barn sem er getið undir dansi norðurljósa verði fallegt og hljóti góð örlög.

Ef norðurljósin verða rauð þá gat það verið fyrirboði um stríð, plágur, blóðsúthellingar og dauða. Þessu var trúað á miðöldum í evrópu. Í þau fáu skipti sem norðurljósin sjást í suðurhluta evrópu þá eru þau venjulega rauð og boðuðu þá yfirleitt eitthvað hræðilegt. Nokkrum vikum áður en franska byltingin átti sér stað sáust dramatísk rauð norðurljós í Skotlandi og Englandi.

Á rólegri nótum þá var því trúað að norðurljósin væru andar himneskra stríðsmanna sem börðust á himnum. Þeir hefði fengið að launum fyrir að fórna lífi sínu í bardaga tækifæri á himnum að fá að berjast að eilífu.

Ekki flauta á norðurljósin. Ef þú flautar, veifar eða syngur til þeirra getur þú átt von á því að þau komi og taki þig í burt. Ef þú hins vegar klappar höndunum þá ertu öruggur aftur.

Indíánar í norður ameríku flautuðu oft á norðurljósin til að ögra þeim og fá þau til að koma nær svo þeir gætu hvíslað skilaboðum til þeirra sem eru dánir.

Sumir Alaska Inúitar voru álíka hræddir en höfðu praktískari nálgun, þ.e. þeir reyndu að fela börnin sín og stundum reyndu þeir að henda hundasaur eða þvagi upp í loftið til að reka ljósin í burtu.

Panorama mynd, samsett úr fjórum myndum, af eyðibýlinu Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd. Canon 5DM4 – 16-35mm II – f/2.8 – 13 sek – iso 3200. Mynd tekin í mars 2017.. Gulu ljósin vinstra og hægra megin eru annars vegar frá Reykjanesbæ og hins vegar frá höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5312
http://www.wanderlust.co.uk/magazine/blogs/weird@wanderlust/5-strange-northern-lights-myths
https://notendur.hi.is/jeg1/nordurljos.pdf
http://www.visir.is/g/2014140219213/trua-a-gaefurikan-getnad-undir-islenskum-nordurljosum
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/739930/
http://grisa.isafjordur.is/frettir/Fyrsti_vetrardagur/
http://ruv.is/frett/vist-hef-eg-alltaf-elskad-thau
http://www.iglobetrotter.com/norway/northern-lights/northern-lights-myths
https://en.wikipedia.org/wiki/Aurora#Historical_theories.2C_superstition_and_mythology
http://goodnature.nathab.com/fifteen-native-tales-about-the-northern-lights/