Hvar og hvenær er hægt að sjá norðurljósin?

Gagnstætt því sem margir halda eru norðurljósin ekki algengust um miðjan vetur heldur nálægt jafndægrum að vori og hausti. Haustið er venjulega hlýrra en vorið og því besti tíminn til norðurljósaathugana.

Norðurljósin eru í gangi allt árið um kring en sjást ekki að sumarlagi vegna birtu. Um miðjan ágúst þegar skyggja tekur er hægt að sjá þau og alveg fram í lok apríl.

Til að sjá norðurljósin er því best að skoða fyrst vefsíður sem segja til um virkni þeirra og skoða síðan aðrar vefsíður sem segja til um skýjafarið, hvar er helst að finna heiðskýran himinn og/eða glufur í skýjunum.

Vinsæl og góð staðsetning til að taka myndir af norðurljósunum – vitarnir á Akranesi. Hérna er mynd af nýrri vitanum, þessi var tekin í febrúar 2016. Canon 5DM3 – 16-35mm II – f/2.8 – 6 sek – iso 3200.

Vefsíður

Veður.is / norðurljósaspá: http://www.vedur.is/vedur/spar/nordurljos/
Leirvogur.is / rauntímavirkni: http://cygnus.raunvis.hi.is//~halo/leirvogur.html
Alaskavefur / norðurljósaspá: http://www.gi.alaska.edu/AuroraForecast

Þessar spár skal alltaf taka með fyrirvara því ekkert er öruggt þegar um náttúruna er að ræða, gott spákvöld getur breyst klikkað og öfugt. Hins vegar ef líkur eru á því að það sjáist til himins þá er hollt og gott að drífa sig út og sjá hvað gerist.

Virkni ljósanna segir líka oft um það hvenær þau byrja á kvöldin, ef virknin er mikil þá má búast við norðurljósum strax í ljósaskiptum milli 19-20 á kvöldin og síðan má búast við því að þau verði vel fram á nóttina. Ef virknin er í meðallagi eða lítil þá er líklegra að norðurljósin byrji seinna og endi fyrr. Það er engin regla með þetta og því erfitt að festa eitthvað á hendi með tímasetningar.

Kp stuðullinn

Nokkrar stærðir eru notaðar til þess að spá fyrir um virkni norðurljósanna en sú þeirra sem mest er farið eftir heitir Kp stuðullinn. Meðaltal mælinga á láréttum þætti (e. horizontal component) segulsviðs á ellefu stöðum á yfirborði jarðarinnar gefur okkur þennan Kp stuðul. Meirihluti þessara mælistöðva er á norðurhveli jarðarinnar og eru því betur til þess fallnar að spá fyrir um virkni norðurljósanna heldur en suðurljósanna. Kp stuðullinn tekur gildi frá 0 og upp í 9 og samsvarar flökti í segulsviði á bilinu 0-500 nT en kvarðinn er ekki línulegur. Með hækkandi Kp stuðli aukast líkur á að sjá norðurljósin. Jafnframt breikkar norðurljósaslæðan þegar Kp stuðullinn er hár en eins og áður hefur komið fram þá geta norðurljósin sést óvenjulega sunnarlega þegar segulstormarnir eru hvað öflugastir.

Kirkjufellið við Grundafjörð er myndefni sem býður upp á endalausa möguleika – fjallið sjálft, fossarnir, vatnið og sjórinn. Þessi mynd er tekin vestan við fjallið í desember 2015.

Val á staðsetningu

Gott er að fara sem lengst frá allri ljósmengun bæja og bíla. Til að gera myndatökuna sem áhugaverðasta er best að finna sér staði sem bjóða upp á gott myndefni í forgrunn, þekkt kennileiti, yfirgefin hús, fjöll, kletta í sjónum.

Þegar staðsetning er valin er gott að hafa í huga hvort tungl er á lofti eða ekki, það getur haft áhrif á staðsetninguna. Tunglið getur verið frábær ljósgjafi til að gefa myndefninu náttúrlega birtu þannig að umhverfið lýsist upp. Því getur verið gott að að mynda landslag og náttúru þegar tungl er á lofti.

Þegar tunglsins nýtur ekki við þá er hægt að velja staðsetningu og myndefni þar sem birtan skiptir ekki eins miklu máli, t.d. speglun á vatni og/eða sjó. Svo er hægt að búa til birtu sjálfur með því að nota bílljósin ef þess er kostur t.d. þegar eyðibýli eru í forgrunn.

Eyðibýli er víða að finna á Íslandi og geta þau verið frábært í forgrunn norðurljósa mynda. Þetta eyðibýli, Arkarlækur, er að finna á Vesturlandi. Bílljósin á bílnum mínum voru síðan notuð til að lýsa upp húsið.

Heimildir:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7000
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2545