Ljósmyndun norðurljósa

Myndun norðurljósa er krefjandi verkefni, norðurljósin eru eitt af undrum náttúrunnar. Ljósin sem virðast birtast upp úr engu og ekki frá neinum ákveðnum stað byrja yfirleitt sem dauf grænleit ljós eða slæða á himninum. Síðan upp úr engu fara ljósin skyndilega að hreyfast, dansa og skipta litum. Á góðu kvöldi getur þetta ferli endurtekið sig nokkrum sinnum, þess á milli dottið niður í greinleitu slæðuna aftur.
Ef norðurljósaspáin er góð og líkurnar góðar á því að sjá til himins er rétt að fara út til að mynda. Væntanlega virkni norðurljósanna er hægt að sjá á www.vedur.is / www.gi.alaska.edu/AuroraForecast og síðan rauntíma virknina á leirvoginum: http://cygnus.raunvis.hi.is//~halo/leirvogur.html. Skýjahuluspáin er líklega nákvæmust á www.belgingur.is.
Staðsetning er mikilvæg, gott er að fara út úr sem mestri ljósmengun og þar sem lítið er af skýjum á himni. Einnig er gott að finna stað sem gefur væntanlegum myndum meira gildi, eitthvað áhugavert í forgrunn myndarinnar t.d. eyðibýli, fallegt landslag, speglun í vatni, viti o.fl.
Þegar þetta er komið er gott að gera sig kláran, fylgjast með skýjaspánni og bíða eftir norðurljósunum.

Panoramamynd tekin á Snæfellsnesi, Þorgeirsfell fyrir miðri mynd. Myndin er samsett úr fjórum myndum, tekin í febrúar 2017.

Tímabil norðurljósanna

Á norðurhveli jarðar er hægt að sjá norðurljósin frá seinni hluta ágúst til loka apríl með góðu móti. Yfirleitt sýna norðurljósin virkni frá kl. 20 á kvöldin og vel fram yfir miðnætti. Það er engin uppskrift eða regla fyrir hvenær þau birtast eða hversu virk þau verða.

Höfrungurinn á Akranesi, fallegur trébátur sem hefur siglt sína síðustu ferð. Ljós frá Akranesi nýttust við að lýsa upp bátinn en á móti þá þurfti að draga niður gula litinn sem kom með þeim.

Grunn ljósmyndaráð fyrir norðurljósamyndatöku

Það er mikilvægt að þekkja ljósmyndabúnaðinn sem þú átt og hvernig á að nota hann í norðurljósamyndatöku. Þú vilt ekki eyða miklum tíma úti í myrkinu og kuldanum í að læra á myndavélina, prufa ýmsar stillingar og finna út úr hvernig hlutirnir eiga að vera. Það eru engar fulkomnar stillingar til fyrir allar myndavélar en hérna fyrir neðan eru nokkur ráð sem gott er að hafa í huga fyrir norðurljósamyndatöku áður en þú ferð af stað út í myrkrið og kuldann.

Ljósmyndaráð:
• Hafa DSLR myndavél sem getur tekið myndir á háum ISO / ljósnæmni. Það gerir þér kleift að stjórna betur öðrum stillingum og eykur möguleikann á því að þú náir góðum myndum.
• Notaðu hæsta ISO sem myndavélin þín ræður vel við, þarna getur verið að þú þurfir að prufa þig áfram. Þú vilt ekki fara of hátt því þá verða myndirnar kornóttar og pixlaðar. Ef myndavélin þín ræður við ISO 1600 og jafnvel 3200 þá ertu í góðum málum.
• Stilltu myndavélina á hæsta ljósop sem linsan býður upp á, lægstu töluna.
• Best er að hafa bjarta, víða og skarpa linsu fyrir norðurljósin. Björt linsa þýðir hátt ljósop, f/2.8 eða hærra. Víð linsa þýðir 16mm eða víðara.
• Gott er að ganga út frá þessum atriðum fyrst við norðurljósamyndatöku, þ.e. að vita hvað myndavélin þolir í ISO og síðan stilla á hæsta ljósopið. Tíminn á myndatökunni fer síðan eftir styrk norðurljósanna hverju sinni, það getur verið frá 2-3 sek upp í 15-20 sek.
• Stilltu linsuna á manual, forstilltu áður linsuna þannig að hún sé í fókus. Á mörgum linsum er vitað hvar fókuspunkturinn er fyrir hið óendanlega – sem er eins og 8 á hlið og síðan aðeins tilbaka. Ef þú veist það ekki þá er ágætt að auto fókusa áður í birtu á eitthvað sem er í að minnsta kosti 3-4m fjarlægð, sjá hvar stillingin liggur á linsunni og festa það í minni. Sé linsan stillt á “auto” mun linsan væntanlega ekki finna fókus í myrkrinu og myndavélin líklega neita að smella af.
• Stilltu white balance á auto eða sunny, þú getur síðan breytt þessu að vild eftir á í tölvunni ef þú vilt.
• Taktu alltaf myndir í RAW formati – hráskrá. Myndin verður stærri með því mótinu og upplýsingarnar um leið mjög miklar sem gefur ýmis tækifæri í eftirvinnslunni í tölvunni.
• Stilltu birtuna á LCD skjánum á myndavélinni úr medium í low. Vont að hafa skjáinn of bjartan þegar þú ert úti í myrkrinu.
• Taktu alla filtera af linsunni sem þú ætlar að nota, þeir geta orsakað línur, bletti og hringi í næturmyndatöku. Margir eru með UV filter á linsunum hjá sér sem hlífðargler dagsdaglega, það þarf að muna eftir því að taka hann af linsunni.
• Notaðu styrkan og góðan þrífót við myndatökuna. Stundum getur verið hvasst, jörðin ójöfn og snjór yfir öllu. Norðurljósamyndir eru yfirleitt teknar á tíma með þrífæti.
• Notaðu fjarstýringu til að taka myndirnar, annað hvort með afsmellisnúru eða þráðlaust. Það er hætta á því að myndirnar verði hreyfðar ef þú ert að smella af á myndavélinni sjálfri.
• Ekki skilja linsuna eftir óvarða ef þú ert ekki að taka myndir úti, ert að bíða eftir ljósunum. Settu lokið á í þeim tilvikum, annars getur komið óhreinindi eða móða á glerið.
• Ekki anda nálægt linsuglerinu í köldu lofti, það getur orsakað móðu eða frostdropa á glerinu.
• Hafið ávallt myndavélaklút meðferðis til að geta þurrkað af glerinu öðru hverju, það kemur yfirleitt alltaf einhver móða á glerið ef kalt er og raki er í loftinu.
• Hafið nóg af auka batteríum við hendina, þau klárast fyrr í köldu lofti.
• Ennig er gott að hafa stórt ljósmyndakort og/eða auka kort ef kvöldið er gott og mikið af myndum er tekið.

Svo þarf bara að fylgjast vel með Norðurljósaspánni og vera tilbúinn með vasaljós, nesti, heitt kakó og hlýjan fatnað þegar sýningin byrjar.

Panorama mynd tekin á Snæfellsnesi, eyðibýlið Dagverðará í forgrunn og Snæfellsjökull í bakgrunn.
Myndin er samsett úr 5 myndum. Canon 5DM4 – 16-35 mm II – f/4 – 6 sek – iso 5000.

Hérna af ofan er hægt að sjá hvernig tunglið er árið 2017. Það getur verið gagnlegt að vita hvort það er fullt tungl eða ekki. Þá er hægt skipuleggja betur hvert á að fara.