Ljósmyndun vetrarbrautar

Vetrarbrautin, stundum kölluð Mjólkurslæðan, nefnist stjörnuþokan sem sólkerfið okkar tilheyrir. Vetrarbrautin er þyrilþoka, ein af milljörðum stjörnuþoka í alheimnum.

Vetrarbrautin okkar fellur vel í hóp þyrilvetrarbrauta, hún er skífulaga með tilkomumikla þyrilarma sem litast upp af heitum, bláum, skammlífum stjörnum. Armarnir teygja sig frá litlum bjálka í miðju Vetrarbrautarinnar

Hér á Íslandi sést vetrarbrautin best snemma á haustin, seinni hluta ágúst og í september og síðan aftur á vorin, apríl. Til að geta séð vetrarbrautina þá þarf að fara í burtu frá allri ljósmengun, finna stað þar sem er heiðskýrt og stjörnubjart, það má ekki vera tungl né sterk norðurljós. Við þær aðstæður getum við séð sjálfa vetrarbrautarskífuna. Hún myndar föla slæðu sem teygir sig yfir himininn. Þegar við horfum á slæðuna á Íslandi erum við að horfa á skífuna á rönd þ.a. frá okkur séð lítur skífan út eins og þykkur borði sem hringar sig 360° umhverfis himinhvelfinguna.

Dauf norðurljós, sem áttu eftir að magnast upp, og vetrarbraut yfir Snæfellsnesi – Þorgeirsfell fyrir miðju myndar. Panoramamynd samsett úr fjórum myndum, mynd tekin í febrúar 2017. Canon 5DM4 – 16-35mm II – f/4 – 30sek – iso 8000.

Nokkur ráð sem vert er að hafa í huga við ljósmyndun vetrarbrautarinnar

• Skoða veður-, tungl- og norðurljósaspá. Það verður að vera heiðskýrt á þeim stað sem þú vilt fara til, það má ekki vera tungl því þá verður of bjart til að sjá vetrarbrautina og það mega ekki vera sterk norðurljós – dauf ljós geta gert myndina meira spennandi.
• Farðu á stað sem langt frá allri ljósmengun. Það þarf að fara vel frá ljósmenguninni annars kemur hún til með að hafa áhrif á myndina, lýsa hana upp og gefa neðasta hlutanum appelsínugulan lit.
• Þú þarft að hafa DSLR myndavél sem getur tekið myndir við hátt ISO / ljósnæmni, helst ISO 6400 og hærra án þess að myndirnar verði kornóttar.
• Linsan þarf að vera björt og víð, ljósop frá f/2.8 eða stærra og víddin frá 16mm eða minna. Það verður að vera hægt að stilla linsuna á manual.
• Stilltu linsuna á manual og stilltu linsuna þannig að fókusinn er skýr. Á mörgum linsum er vitað hvar fókuspunkturinn er fyrir hið óendanlega – sem er eins og 8 á hlið og síðan aðeins tilbaka. Ef þú veist það ekki þá er ágætt að auto fókusa áður í birtu á eitthvað sem er í að minnsta kosti 3-4m fjarlægð, sjá hvar stillingin liggur á linsunni og festa það í minni. Sé linsan stillt á “auto” mun linsan væntanlega ekki finna fókus í myrkrinu og myndavélin líklega neita að smella af.
• Þrífótur er nauðsynlegur og hann þarf að vera styrkur og stöðugur.
• Notaðu afsmellisnúru eða þráðlausa fjarstýringu til að taka myndirnar.
• Stilla vélina á ISO 6400 eða hærra, ljósopið á f/2.8 eða hærra og taka síðan myndina á tíma í 30 sek. Sjá hvernig myndin kemur út og prufa sig áfram út frá því.

Vetrarbrautin mynduð á Þingvöllum og vasaljós notað til að gera myndina áhrifaríkari. Guli liturinn er annars vegar frá Reykjavík og hins vegar frá Selfossi. Canon 5DM3 – 16-35mm II – f/2.8 – 25 sek – iso 12.800.

Vetrarbrautin að hausti yfir eyðibýlinu Fiskilæk á Vesturlandi. Ef grannt er skoðað þá sjást töluvert af strikum sem eru eftir gervihnetti sem eru á stöðugri hreyfingu. Canon 5DM3 – 16-35mm II – f/2.8 – 30 sek – iso 6400.

Dauf norðurljós og vetrarbraut liggja saman, mynd tekin í mars 2013. Lega vetrarbrautarinnar er öðruvísi að vori en að hausti. Eyðibýlið Illugastaðir á Þverárfjalli í forgrunn.

Hérna að ofan er hægt að sjá hvernig tunglið hegðar sér út árið 2017. Það er gagnlegt að vita hvort það sé fullt tungl eða ekki fyrir ljósmyndun vetrarbrautar.