Sögur og ljóð um norðurljós

Fegurð og dulúð norðurljósanna hafa orðið mörgu skáldinu yrkisefni ýmissa sagna og ljóða. Hér getur að líta nokkur þeirra. Ef þið lumið á sögu og/eða ljóði um norðurljósin þá endilega sendið á jonhilmarsson.photography@gmail.com og það verður birt á síðunni.

Eru til sögur og/eða ljóð um Hvítserk í Húnaflói? Eitthvað tengt norðurljósum?

Norðurljós – Einar Benediktsson

Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!
Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín,
og lækirnir kyssast í silfurósum.
Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.

Frá sjöunda himni að ránar rönd
stíga röðlarnir dans fyrir opnum tjöldum,
en ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum
falla og ólga við skuggaströnd.
Það er eins og leikið sé huldri hönd
hringspil með glitrandi sprotum og baugum.
Nú mænir allt dauðlegt á lífsins lönd
frá lokuðum brautum, frá myrkum haugum,
og hrímklettar stara við hljóðan mar
til himins, með kristalsaugum.

Nú finnst mér það allt svo lítið og lágt,
sem lifað er fyrir og barizt er móti.
Þó kasti þeir grjóti og hati og hóti,
við hverja smásál ég er í sátt.
Því bláloftið hvelfist svo bjart og hátt.
Nú brosir hver stjarna, þótt vonirnar svíki,
og hugurinn lyftist í æðri átt,
nú andar guðs kraftur í duftsins líki.
Vér skynjum vorn þrótt, vér þekkjum í nótt
vorn þegnrétt í ljóssins ríki.

Hve voldugt og djúpt er ei himinsins haf
og hásigldar snekkjur, sem leiðina þreyta.
Að höfninni leita þær, hvort sem þær beita
í horfið – eða þær beygja af.
En aldrei sá neinn þann, sem augað gaf,
– og uppsprettur ljóssins ei fundnar né skýrðar.
Með beygðum knjám og með bænastaf
menn bíða við musteri allrar dýrðar.
En autt er allt sviðið og harðlæst hvert hlið
og hljóður sá andi, sem býr þar.

Einar Benediktsson

Hin björtu blysin Guðs – Jóhannes úr Kötlum

Ég sat um kvöld og horfði hátt
á himinsblámans djúp,
og augun drógust dræmt í kaf
í dimman næturhjúp.
Ég vildi horfa húmið burt
og heiðið bak við sjá.
Og ef til vill var augasteinn minn
óskasteinninn þá.

Ég vildi sigra sortans mátt
og sjá í gegnum hann,
því einhver þrá til æðra lífs
í æðum mínum brann.
Ég þráði meira, meira ljós
í mína veiku sál;
ég þráði glóð frá Guði sjálfum,
glóð sem væri ei tál.
Þá kviknaði allt í einu snöggt
á undralampans kveik.
Og sjá, hin björtu blysin Guðs
sér brugðu í fagran leik.
Þau þutu víða vegu geims
og vóðu blámans hyl,
og leifturhraðar litasveiflur
lýstu jarðar til.

Að lýsa þeirra Drottins dýrð
ei dauðleg tunga kann,
en helga nálægð himinsins
mitt hjarta þegar fann.
Og lúin sál mín lagðist þar
við lífsins bjarta ós,
og svalg á einu augnabliki
öll þau norðurljós.
Þá barnið hló í brjósti mér,
og birtan varð mín hlíf.
Ég heyrði Drottins hjarta slá,
þá hvarf mér dauði og Elíf.
Ég sá við undralampans ljós
á leifturhraðri ferð:
úr ótal slíkum augnablikum
eilífðin er gerð.

Jóhannes úr Kötlum

Snæfellsnes er vettvangur margra sagna og ljóða. Eru til einhverjar sögur og ljóð um norðurljós af Snæfellsnesi? Þessi panoramamynd er úr Kolgrafarfirði þar sem mörg hundruð þúsund tonn af síld syntu á land fyrir nokkrum árum og dóu..

Minning – Hjartalag

Í snjónum liggjum
systur tvær
horfum hátt
í himin inn.
Litlar perlur
lúta niður
okkur á.

Norðurljósin
sínu skarta.
Stíga dans
flögra um.
Finna farveg
milli fjalla
Fögur er sú stund.

Himinhvolf yfir drúpir
höfðum okkar.
Nú ríkir lottning ein.
Rétti út hönd
finn þína við mína.
Systur tvær,
tíu og tólf
deila stund.

Fögur minning
úr sveitinni
svífur hjá
lifir enn.

Hjartalag

 

Þessi flugvél á Sólheimasandi á sér sögu og hundruð ferðamanna skoða hana á hverjum degi. Myndir þú vilja semja sögu og/eða ljóð um flugvélina og tengja við norðurljós?

Skemmtilegar sögur

https://storybird.com/chapters/spirit-of-the-northern-lights-1/